3.9.2010 | 23:31
UTMB 2010 - Ræs í rigningu
Rétt fyrir klukkan hálf fimm á laugardagsmorgni þá hrökk ég upp þegar úrhelli gerði svo glumdi í öllu húsinu. Afskrifaði þar með hlaupið sem búið var að melda og ákvað að tékka hvernig Arnfríði og Helgu gengi svo ég gæti í það minnsta gengið/hlaupið á móti þeim til að gera eitthvað þann daginn.
Stuttu seinna kom SMS, búið að aflýsa CCC og setja á annað hlaup fyrir TDS/UTMB hlaupara en þar sem rúturnar væru uppteknar við að ná í CCC hlaupara yrðu bara 1000 pláss laus í hlaupið. En svo var öðrum frjálst að fara með bílum og auk þess var slatti af TDS hlaupurum þegar staðsettur í Courmayeur eftir að hafa gist um nóttina.
Var í engu stuði og fór í hlaupagallann eftir að hafa heyrt í Sigga Kiernan, vissi ekki hvort Danni ætlaði en amk var ákveðið að hittast við rúturnar um 6. Það ringdi vel á okkur þannig að útlitið var ekki bjart og þar sem ég var vel stirrður eftir fyrra hlaupið og illa sofinn heillaði beddinn mig meira en hlaup í rigninu. Siggi og Danni voru mun hressari en ég enda náð aðeins meiri svefn og voru úthvíldir.
En yfir við fórum og vorum komnir til Courmayeur fyrir átta og hlaupstart var áætlað kl. 10. Sól og blíða var þarna og kætti það mig aðeins enda mun betra að hlaupa í flottu veðri en rigningu og þoku. Ég og Siggi komum frekar seint að startinu og urðum að troða okkur framar til að lenda ekki alltof aftarlega í biðröðinni upp fyrsta fjallið en 1400 hlauparar ná ekki að breiða mikið úr sér á þeim 2 km sem hlaupið er eftir áður er farið er upp í fjall eftir einstígi.
Startið gekk ágætlega fyrir sig, hljóp með Sigga en Danni hvarf strax á undan okkur. Vorum ca. númer 500 að ég taldi þegar við byrjuðum að klifra upp fjallið. Við smá flöskuháls náði Siggi að komast aðeins framar og gaf svo vel í upp, eftir það sá ég hann ekki og var í rauninni aldrei viss hvort ég væri á undan honum eða eftir, en taldi líklegra að hann væri fyrir framan mig.
Ég hélt nokkuð jafnri ferð upp enda ljóst að biðröð yrðið fyrstu 20 km og erfitt að taka framúr nema með styttri stoppum á drykkjarstöðvunum. Fannst líka hraðinn bara fínn á þeim sem ég hljóp með og var ekkert að stressa mig. Þegar ég kom niður í Arnuva þá ákvað ég að fara í stakkinn og langerma bol þar sem það leit út fyrir að vera slæmt veður á næsta fjalli Col de Ferret, 2536m.
Ganga þangað upp var erfiðari en oft áður, náði ekki alveg að detta í gang en yfirleitt hef ég tekið síðustu 500m í hækkun (af 1300m) nokkuð greiðlega. Hinsvegar var veðrið frekar slæmt efst uppi og sá ég ekki tímastöðina á toppnum fyrr en ég nánast gekk á hana. Strax og komið var yfir fjallið tók við blíða en leiðin niður fjallið var eitt drullumall. Skellti mér því í fluggírinn og rúllaði greitt niður í dalinn og náði nokkrum hlaupurum í leiðinni. Svo var hlaupið niður í La Fouly stöðina og tekið stutt stopp en nú hafði mér tekist að ná góðum tökum á stoppunum, tvær súpur og fylla á vatn og út. ca. 5-7 mín.
Áfram var haldið og var ég undrandi hvað ég gat hlaupið en dalurinn hefur stundum verið erfiður. Hljóp því nánast alla leið að brekkunni upp í Champex, leið bara vel og hafði náð með stuttu stoppi í La Fouly og stöðugu hlaupi niður ca. 50 sætum að ég taldi. Þarna var ég að plana næsta hluta þ.e. frá Champex og í mark, orkan var í góðu lagi en lærin orðin dálítið sár.
Var í góðu stuði og ætlaði að dúndra á restina eftir stutt stopp í Champex, en fyrst var það brekkan upp í Champex, ca. 25 mín ganga. Um leið og ég steig í hana fór allt á hliðina, svefnleysið helltist yfir mig og nánast lamdi mig til jarðar. Náði samt að halda mér gangandi alla leiðina upp en þessi mikla breyting frá því að vera í miklu stuði og ákveðni yfir í þreytu og missa 50 hlaupara fram úr sér á þessum stutta spotta gerði útaf við alla frekari hlaupalöngun. Hafði þarna sofið í 1 klst+ síðustu 35 klst og því ekkert skrýtið að ég yrði svolítið framlár.
Sá fram á amk 10 klst í viðbót í hlaupinu og yrði þá kominn í 45 klst með 1 klst svefn, hafði ekki áhuga leggja mig í klst í Champex og safna kröftum, búinn að fá nóg af þeirri lausn. Ákvað því að láta staðarnumið og þrátt fyrir hvatningu Íslendinganna sem voru mætt á svæðið þá varð því ekki breytt.
Renndi í bæinn með mínu fólki og eftir sturtu var hlaupið í markið til að sjá Jez Bragg koma í markið og náðum við því upp á sekúndu. Sem var algjörlega meiriháttar enda hann hluti af íslensk/bresk/franskri vinagrúppu sem varð til 2007 og hefur haldið hópinn síðan og átt keppendur á hverju ári í UTMB/TDS/PTL.
Seinna um kvöldið jókst stuðið heldur betur þegar von var á Danna og Sigga í mark og stóðu þeir sig ótrúlega vel miðað við hafa verið ca. númer 5-600 yfir ráslínuna, að vera á topp 150 fyrir þá er bara snilld. Þeir voru heldur betur ánægðir með að hafa klárað þetta hlaup enda ólíkt öllu öðru sem þeir hafa prófað.
Arnfríður og Helga Þóra voru líka í góðum málum þar til keppnin þeirra var stöðvuð, hefðu verið langt undir tímamörkum þrátt fyrir rigningu og erfiðar aðstæður í fjöllunum.
Í allt var þetta bara meiriháttar helgi, systur mínar tvær Sigrún og Saga, Snjólaug, Siggi Smára, Halldóra og Geir stóðu sig vel í bakvarðasveitinni og er það gullsígildi að eiga góða að. Sérstaklega var gaman að sjá systurnar og Snjólaugu nýta tækifærið og drífa sig upp í fjöllinn með næsta kláf og hlaupa niður. En það munu líða mánuðir þar til brosið fer af mannskapnum, allir byrjaðir að pæla í vegalengdum næsta árs, hvort UTMB 166 km sé möguleiki o.s.frv. Ég verð klárlega á ráslínunni 2011 ef ég kemst inn.
Danni og Halldóra fyrir utan Champex stöðina
Siggi að klára
Danni og Halldóra við markið
Eftirpartý á sunnudagskvöldið
Sigurvegarar, Jez í grænu, Lizzy Hawk í The North Face bol og Mike Wolf (nr. 2) í hvítum TNF bol.
Tenglar
Bloggrúnturinn
- Agga
- Gunnlaugur
- Asics liðið
- Ásta
- Sóla
- Steinn Jóh.
- Gísli ritari
- Bibba svala
- Jens
- Biggi Sævars
- Vala
- Eva og co
- Stefán Gísla
Hlaupatenglar
- Hlaup.is
- Afreksvörur Daníels Smára
- Þríþrautarfélag Reykjavíkur
- Laugaskokk
- Átak heilsurækt
- Hlaupadagbókin
Hlaupasögur
Ultrahlaup
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ég þakka fyrir kveðjuna - þetta var yndisleg helgi og ég verð klárlega til staðar í Chamonix á næsta ári til að styðja ykkur ef Helga verður heppin og fær skráningu fyrir næsta hlaup
Geir (IP-tala skráð) 4.9.2010 kl. 22:42
Snilldarferð , maður þarf líklega að fara að sækja um inngöngu í bakvarðarsveitina að ári :)
Snjólaug (IP-tala skráð) 5.9.2010 kl. 23:02
Þú hefur fengið inni í bakvarðasveitinni svo þú getur farið að æfa fagnaðarlæti og vökunætur yfir tölvunni :)
Börkur Árnason, 6.9.2010 kl. 19:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.